FBI skoðar tengsl Rússa og Trumps - beint

20.03.2017 - 15:11
James Comey við yfirheyrslur í Bandaríkjaþingi
James Comey, forstjóri Bandarísku Alríkislögreglunnar, við yfirheyrslur í Bandaríkjaþingi í dag.  Mynd: AP
Forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, James Comey, staðfesti í dag að möguleg tengsl Rússa við starfsmenn forsetaframboðs Trumps á síðasta ári væru til rannsóknar. Þetta kom fram í máli Comeys við opinberar yfirheyrslur sem nú standa yfir á Bandaríkjaþingi. Comey sagði að afskipti Rússa af kosningabaráttunni væru til rannsóknar; hvort starfsmenn Trumps hefðu verið í samskiptum við Rússa og hvort þeir hefðu á einhvern hátt stillt saman strengi sína.

Comey sagði einnig að engar upplýsingar lægju fyrir sem styddu þær fullyrðingar Trumps Bandaríkjaforseta að Obama, fyrrverandi forseti, hefði látið hlera síma í Trump-byggingunni í New York. Michael Rogers, forstjóri Þjóðaröryggisstofnunarinnar, National Security Agency, var spurður hvort breskar leyniþjónustur hefðu verið beðnar að njósna um samskipti Trumps. Rogers neitaði því. 

Comey og Rogers sitja frammi fyrir þeirri þingnefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings sem fæst við málefni leyniþjónustustofnana. 

Fréttin var uppfærð kl. 15.16. 

Hér að neðan má fylgjast með beinni útsendingu frá yfirheyrslunum á Youtube

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV