Farsælast að ríkið eignaðist Jökulsárlón

12.04.2016 - 18:47
Land að Jökulsárlóni, einni helstu náttúruperlu landsins, verður að líkindum slegið hæstbjóðanda. Uppboðsferli hefst á fimmtudag. Bæjaryfirvöld á Hornafirði óttast að landið seljist fyrir offjár og að þrýst verði á mikla uppbyggingu sem gæti spillt svæðinu. Bæjarstjórinn vill að ríkið meti hvort það eigi að kaupa landið.

Talið er að yfir 300 þúsund ferðmenn hafi staldrað við Jökulsárlón í fyrra enda ekki margir staðir þar sem sjá má stóra jaka kútveltast til sjávar. Mikil tækifæri eru á uppbyggingu og frekari starfsemi við lónið en vegna deilna landeiganda hefur ekki verið hægt að bæta aðstöðu. Nú er svo komið að sameignarfélagi jarðarinnar Fells verður slitið og uppboð hefst á fimmtudag. Ljóst er að háar fjárhæðin fást fyrir jörðina, hundruð milljóna hið minnsta og hafa tölur allt upp í tvo milljarða verið nefndar. Bæjaryfirvöldum á Hornafirði líst ekki á blikuna enda takmarkar deiliskipulag við lónið starfsemi og um leið tekjumöguleika. „Það deiliskipulag sem er þarna á svæðinu gerir ráð fyrir ákveðinni þjónustu við ferðamenn og ákveðinni atvinnustarfsemi. En ekki í hóteli eða gistihúsarekstri. Maður ímyndar sér að ef menn ætla að borga mjög háar upphæðir fyrir jörðina að þá ætli menn að fara út í einhverja svoleiðis starfsemi á svæðinu,“ segir Björn Ingi.

Vesturbakki lónsins er þjóðlenda og honum má ekki raska með byggingum samkvæmt skipulagi. Uppbygging verður aðeins á austurbakkanum sem er á leið á uppboð. Við gerð deiliskipulags varð niðurstaðan að leyfa ekki hótel við lónið en hátt kaupverð gæti skapað þrýsting á slíkt. „Ef menn eru að tala um einhverja milljarða eins og maður hefur svo sem heyrt fleygt þá getur maður ekki annað en hugsað um það; hvernig ætla menn að ná þeim peningum til baka út úr þeirri fjárfestingu sem menn eru að fara í. Hótel kallar á mjög mikla og víðtæka starfsemi, hreinsivirki, fráveitu og vatnsöflun. Hótel sem þarna yrði byggt, út af því hversu flatt þetta svæði er, yrði mjög sýnilegt alveg sama hvar þú ert á lóninu eða við lónið. Þannig að það myndi verulega spilla þeirri ásýnd sem þarna er í dag,“ segir Björn Ingi. 

Bæjaryfirvöld telja að ríkið gæti gripið í taumana. „Í ljós þess að þetta er kannski ein af þremur stærstu náttúruperlum Íslands þá finnst mér ekki óeðlilegt að hún sé í eigu opinberra aðila. Ég myndi segja að ríkið ætti að skoða það að bjóða í þetta og leysa þessa eign til sín. Til þess að geta tryggt í raun og veru hver slags uppbygginu við viljum sjá þarna á svæðinu og jafn aðgengi allra að þessari miklu náttúruperlu sem þetta er,“ segir Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Einar Björn Einarsson, framkvæmdastjóri Jökulsárlóns ehf., sem hefur siglt með ferðamenn um lónið og vonar að uppboðið bindi enda á deilur landeigenda um uppbyggingu. „Ég vona bara að það komi eitthvað virkilega gott út úr því og að þarna verði hægt að byrja að byggja upp sem allra fyrst. Það verða allavera færri eigendur það verður kannski ekki við 40 manns að eiga. Það hefur verið ófriður þarna og það er að detta bráðum í 30 ár held ég. Það var þegar ég kaupi og hefur verið síðan ég keypti þannig að þetta er langur tími,“ segir Einar.

Hann á stóran hlut í jörðinni og áformar að bjóða í. Fái hann ekki jörðina sjálfur myndi hann hagnast talsvert á því að hún færi fyrir hæst verð. „En ég vona það að það verði raunhæft verð sem fæst fyrir þetta og að það verði í eigu Íslendinga,“ segir Einar en samningur hans um siglingar á lóninu rennur út í ársbyrjun 2025 eða eftir tæp 9 ár.