Fámál og hlédræg

21.04.2017 - 15:16
Menning · Flakk
Það var þó engin hlédrægni í verkum Louisu Matthíasdóttur, en í ár er öld liðin frá fæðingu hennar, og af því tilefni verður opnuð sýning á Íslandsmyndum hennar að Kjarvalsstöðum.

Farið var á slóðir Louisu Matthíasdóttur listmálara í Flakki á Rás 1, í fylgd Jóns Proppé listheimspekings, og Temmu Bell, dóttur Louisu.

Málverk kemur ekki í stað lífsins

Sagði Louisa Matthíasdóttir í viðtali við frænda sinn Matthías Jóhannessen skáld og ritstjóra, og í sama viðtali segir Matthías að það sé ekki á vísan að róa þegar Louisa er annars vegar, fámál og hlédræg.  Einhvern tíma var sagt, að fjölskylduboð, þar sem hún var stödd, hefði tekist einkar vel; mágur hennar Sverrir Ragnars, sagði eitt orð, en hún tvö! Temma Bell dóttir Louisu og Leland Bell er stödd hér á landi vegna sýningarinnar, hún segist ekki hafa upplifað móður sína hlédræga gagnvart sér, en vissulega hafi hún verið feiminn og átt erfitt með að koma sjálfri sér á framfæri. 

Málað utandyra

Louisa og Nína Tryggvadóttur sáust gjarnan úti við að mála á stríðsárunum, báðar í síðbuxum og það var tekið eftir þeim. Þær áttu góðar stundir í Unuhúsi, þar sem menningarumræðan blómstraði á þeim árum. Louisa og sömuleiðis Temma dóttir máluðu gjarnan á svölunum í íbúð þeirra á Hverfisgötu, en þar var útsýnið svipað og í Höfða þar sem Louisa bjó sem barn, Esjan, Akrafjall og Skarðsheiði, en nú er búið að byggja fyrir útsýnið, en Temma nýtir sér enn íbúðina á fimmtu hæð.

Einstakur listamaður

Segir Jón Proppé listheimspekingur um verk Louisu, en hann hefur stúderað hana í mörg ár og náði að hitta hana einu sinni, en hún lést árið 2000. Jón segir frá ævi hennar og störfum í þættinum og einstaklega skemmtilegt að koma á æskuheimili hennar í Höfða þar sem fjölskyldan bjó í 10 ár.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Lísa Pálsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Flakk
Þessi þáttur er í hlaðvarpi