Fáir grásleppubátar á sjó í upphafi vertíðar

20.03.2017 - 17:38
Mynd með færslu
Þrír bátar fóru til grásleppu frá Grenivík í morgun  Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Nærri helmingi færri grásleppubátar eru nú skráðir til veiða í upphafi vertíðar en þegar veiðin hófst í fyrra. Helsta ástæðan er lágt verð fyrir grásleppuna. Einhverjir skoða möguleika þess að hefja sjálfir verkun í von um hærra verð.

Trillukarlar á Grenivík komu í land um hádegisbil, frá því að leggja grásleppunet, en veiðarnar máttu hefjast í morgun. Eins og RÚV hefur greint frá eru sjómenn afar óánægðir með það verð sem kaupendur bjóða fyrir grásleppu. Því ákváðu margir að fara ekki til veiða í morgun. Núna í upphafi vertíðar er búið að sækja leyfi fyrir 35 grásleppubáta hjá Fiskistofu. Þetta voru 69 bátar í upphafi vertíðar í fyrra.

„Ekki góður bissness“

„Ég er til dæmis með háseta sem á strandveiðibát og þarf að vera laus fyrir 1. maí. Þannig að ef ég fer að bíða eitthvað, þá missi ég bara manninn,“ segir Jón Þorsteinsson, skipstjóri á Feng ÞH frá Grenivík. „Ég held að þetta sé ekki góður bissness fyrir unga menn sem skulda í útgerðinni sinni.“

Segja forsendur fyrir hærra verði

Á síðustu vertíð voru borgaðar 155 krónur fyrir kílóið af grásleppu á móti 207 krónum árið á undan. Nú bjóða kaupendur 165 krónur fyrir kílóið. Engar birgðir eru af grásleppuafurðum á landinu og því segja sjómenn góðar aðstæður til sölu og forsendur séu fyrir hærra verði.

„Láta ekki vaða yfir sig á skítugum skónum“

„Ef það verður svipuð veiði og í fyrra þá vantar klárlega hrogn. Það er ekki nóg, markaðurinn þarf meira,“ segir Þórður Birgisson, sjómaður og formaður Kletts, félags smábátaeigenda á Norðurlandi eystra. „Og menn eru alvarlega að spá í að fara að salta sjálfir og setja þá aðeins meiri þrýsting á þá sem eru að verka hrogn hérna á Íslandi. Og það er líka kannski ástæða fyrir því að menn eru ekkert farnir af stað. Menn ætla aðeins að meta stöðuna og láta ekki vaða yfir sig á skítugum skónum einu sinni enn,“ segir Þórður.