Færeyingar vilja hertar reglur um laxalús

23.01.2016 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: Kringvarpið  -  RÚV
Færeyingar íhuga nú að herða reglur um laxalús sem er vaxandi vandamál þar líkt og í Noregi. Laxeldi í Sørvágsfirði hefur verið til umræðu en íbúi þar segir lúsina vera eyðileggja líf í firðinum. Heildarkostnaður í Noregi vegna lúsavandans nam allt að 75 milljörðum íslenskra króna árið 2015. Lúsin er ekki vandamál í íslensku eldi.

Í frétt færeyska Kringvarpsins er rætt við Rodmund á Kelduni sem segir lúsina vaxandi vandamál í firðinum. Hún leggist á aðra fiska svo sem gráröndung. Þá sé til siðs í Færeyjum að veiða smáufsa og gera úr honum fiskibollur. Fiskurinn haldi sig við kvíarnar og sé svo laus í holdum að ekki sé hægt að matreiða hann lengur. Þá segir Rodmund óeðlilegt magn af ormi í þeim fiskum sem veiðist í námunda við eldið.

Í viðtali við Kringvarpið segir Atli Gregersen, forstjóri eldisfyrirtækisins Luna, að æskilegt sé að lækka fjölda leyfilegra lúsa á slátruðum fiskum úr tveimur í eina. Atli er einnig talsmaður eldisfyrirtækja í Færeyjum. Birna Mörköre landsdýralæknir tekur í sama streng. Stefnt sé að því að lækka leyfilegan fjölda lúsa úr tveimur í eina.

Í Noregi gilda enn strangari reglur um fjölda leyfilegra lúsa eða 0,5 á hvern lax. Lúsin er viðvarandi vandamál á mörgum stöðum í Noregi og fylgir henni gríðarlegur kostnaður. Áætlað er að heildarkostnaður iðnaðarins hafi aukist um allt að 50% milli áranna 2014 og 2015. Kostnaður sé fjórar norskar krónur á hvert kíló af laxi eða um 60 íslenskar krónur. Heildarkostnaður geti hafa numið allt að fimm milljörðum norskra króna eða um 75 milljarða íslenskra króna.

Inge Berg, framkvæmdarstjóri Nordlaks, segir í viðtali við Verdens Gang að umræða um lúsavandann í norsku laxeldi sé of einhliða. Vandamálið sé í raun óraunhæfar kröfur um fjölda lúsa sem geri það að verkum að eldisfyrirtæki þurfi í sífellt meira mæli að nota lyf í baráttunni gegn lúsinni. Markvissara væri að takmarka fjölda fiska í kví en að setja óraunhæfar kröfur um fjölda lúsa.

Inge Berg segist viss um að Norðmenn verði búnir að útrýma lúsinni innan þriggja ára. Markvisst sé unnið að því með ýmissi tækni sem ekki feli í sér notkun efna og lyfja. Hann hafi þó enga trú á að lokuð laxeldiskerfi á landi taki yfir en slík kerfi hafa verið í mikilli þróun.

Notkun grásleppuseiða hefur gefið góða raun í Færeyjum. Þeir hafa meðal annars flutt inn grásleppu frá Íslandi. Bakkafrost, stærsta eldisfyrirtæki Færeyja, notar skip sem var keypt til að flytja fisk nú nánast eingöngu sem „þvottavél“ fyrir lax. Fiskurinn er tekin um borð í skipið í fimm tíma þar sem hann syndir í ferskvatni og hann svo settur í sjó á ný. Við þetta losni hann við 90% eða meira af lúsinni.

Laxalús er ekki vandamál í laxeldi hér á landi samkvæmt síðustu árskýrslu Matvælastofnunar um fisksjúkdóma. Tekið er fram að með auknu laxeldi sé viðbúið að tilfellum fjölgi. En eftirlit hér sé það gott að ekki hafi þurft að beita lyfjameðhöndlun gegn lús í 24 ár.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV