Erdogan bregst ókvæða við ákvörðun Hollendinga

11.03.2017 - 12:09
Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, á samkomu við sendiskrifstofu Tyrklands í Hamborg, Þýskalandi, þar sem hann talaði fyrir breytingum á stjórnarskrá Tyrklands.
Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, á samkomu við sendiskrifstofu Tyrklands í Hamborg, Þýskalandi, þar sem hann talaði fyrir breytingum á stjórnarskrá Tyrklands.  Mynd: AP  -  Ap
Tayyip Erdogan forseti Tyrklands hefur hótað Hollendingum refsiaðgerðum, eftir að hollensk stjórnvöld ákváðu að meina flugvél utanríkisráðherra Tyrklands að lenda í Rotterdam í dag. Erdogan líkir Hollendingum við fasista og nasista. Sendiherra Hollands í Istanbúl hefur verið boðaður á fund í tyrkneska utanríkisráðuneytinu vegna málsins.

Samskipti tyrkneskra stjórnvalda við nokkur Evrópuríki hafa verið stirð að undanförnu, eftir að stjórnvöld og borgaryfirvöld í Þýskalandi, Austurríki og Sviss aflýstu kosningafundum, þar sem tyrkneskir ráðherrar og stjórnmálamenn ætluðu að tala fyrir umdeildum breytingum á tyrknesku stjórnarskránni. Á fundina áttu að koma Tyrkir búsettir í þessum löndum sem eru með kosningarétt í Tyrklandi.

Ástandið batnaði ekki í morgun, þegar hollensk yfirvöld ákváðu að meina flugvél tyrkneska utanríkisráðherrans, Mevlut Cavusoglu, að lenda í Rotterdam, þar sem hann ætlaði að koma fram á kosningafundi. Borgarstjóri Rotterdam hafði áður sagt að fundinum yrði aflýst vegna þess að ekki væri hægt að tryggja öryggi fundargesta. Þessi ástæða hefur áður verið tiltekin, í Þýskalandi, Sviss og Austurríki.

Tyrknesk stjórnvöld hafa brugðist ókvæða við þessum ákvörðunum. Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands sagði í morgun að hegðun hollenskra stjórnvalda minnti á nasista og fasista, og hann hótaði refsiaðgerðum gagnvart hollenskum flugfélögum sem lenda á tyrkneskum flugvöllum. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Erdogan bregst svona við, á dögunum líkti hann stjórnarháttum í Berlín við tíð nasista í Þýskalandi, eftir að nokkrum kosningafundum var aflýst þar í landi, í Köln, Hamborg og víðar. Samskonar fundum var aflýst í Sviss og Austurríki í gær.

Þjóðaratkvæðagreiðslan í Tyrklandi fer fram í næsta mánuði og snýst um breytingar á stjórnarskrá landsins; breytingar sem Feneyjanefnd Evrópuráðsins kallar hættulegar fyrir lýðræðið í landinu. 

Fréttin var uppfærð 12.17

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV