Engir Íslendingar að baki kaupum á Arion-hlut

27.02.2017 - 16:17
Höfuðstöðvar Arion banka
 Mynd: RÚV
Seðlabankinn telur ekki að íslenskir fjárfestar standi að baki fyrirhuguðum kaupum erlendra vogunarsjóða - á stórum hlut í Arion banka. Sjóðirnir ætli sér að eiga og reka banka á Íslandi til nokkurrar frambúðar. Þetta kom fram á Alþingi í dag.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, innti fjármálaráðherra eftir fréttum af mögulegri sölu á um helmingshlut í Arionbanka til erlendra vogunarsjóða og íslenskra lífeyrissjóða fyrir allt að 90 milljarða króna. Hún vildi vita hverjir eru á bak við vogunarsjóðina og hvort mat hefði verið lagt á það hvort þeir ætluðu sér að vera í bankastarfsemi á Íslandi til framhtíðar eða endurselja hlutinn fljótt og hagnast á því.

Seðlabankinn telur enga Íslendinga að baki kaupunum

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, staðfesti að borist hefði erindi til Seðlabankans og ráðuneytisins frá nokkrum erlendum eigendum slitabús Kaupþings - sem á stærstan hlut í Arion banka - varðandi kaup á hlut í bankanum. Hann sagði Seðlabankann hafa kannað hvort einhverjir aðrir standi að baki vogunarsjóðunum. „Menn telja að svo sé ekki, að þetta séu aðilar sem ætli sér að vera í bankastarfsemi hér til nokkurrar framtíðar en menn geta auðvitað ekki skuldbundið sig um aldur og ævi. Ég taldi það vera afar mikilvægt að vita hvort þetta væru raunverulega þessir aðilar, sem allir eru erlendir, eða hvort þarna stæðu einhverjir íslenskir aðilar að baki. En mér er sagt að svo sé ekki.“

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV