Endurskoða tölur um kostnað Marriott-hótels

21.04.2017 - 11:48
Mynd með færslu
Frá blaðamannafundinum í ágúst 2015. Fyrir miðju er Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Co. Honum til vinstri handar er Sandeep Walia, svæðisstjóri Marriott í Evrópu.  Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Einkahlutafélagið Cambridge Plaza Hotel Company á í viðræðum við þá sem gerðu tilboð í byggingu lúxushótelsins Marriott Editions sem rísa á við hlið Hörpu í Reykjavík. Fram kom í fréttum Vísis fyrr í þessum mánuði að fjögur tilboð hefðu borist í uppsteypu hótelsins og stefnt var að því að niðurstaða um hvaða tilboði yrði tekið lægi fyrir fyrir páska. Karl Þráinsson, talsmaður einkahlutafélagsins, segir að þessu seinki þar sem verið sé að endurskoða tölur tilboðsgjafa.

Þegar greint var frá því í ágúst 2015 að Marriot Edition hótel myndi rísa við hlið Hörpu var bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Co. sagður eigandi lóðarinnar. Karl segir að nú eigi Cambridge Plaza Hotel Company lóðina og Carpenter & Co. eigi hlut í því félagi. 

Fréttastofa RÚV greindi frá því í maí 2016 að röð eignahaldsfélaga væri að baki hótelinu og hún endar í Delaware í Bandaríkjunum.

Karl segist vonast til þess að niðurstaða í tilboðsmálin fáist fyrir lok mánaðarins. Þá er stefnt að því að hótelið verði risið á fyrrihluta ársins 2019. 250 herbergi eiga vera á hótelinu og jafnmargir starfsmenn.