Eldur í kísilmálmverksmiðju United Silicon

17.07.2017 - 05:31
Mynd með færslu
Búið var að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á vettvang.  Mynd: Hilmar Bragi  -  Víkurfréttir
Eldur kviknaði í kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík um þrjúleytið í nótt. Víkurfréttir greina frá þessu. Samkvæmt frétt blaðsins kviknaði eldurinn vegna mistaka sem gerð voru þegar unnið var við ofn verksmiðjunnar. Töluverðan, hvítan reyk mun hafa lagt frá verksmiðjunni um hríð. Ásgeir Þórisson hjá Brunavörnum Suðurnesja sagði í samtali við fréttastofu að eldurinn hafi ekki verið mikill og starfsmenn hafi verið búnir að slökkva hann þegar slökkviliðið kom á staðinn.

Verið var að tappa fljótandi kísilmálmi af ofni verksmiðjunnar en gatið sem gert var til þess arna var of stórt. Því rann of mikið og of hratt í karið fyrir neðan með þeim afleiðingum að glóandi, 1.700 gráðu heit kísilmálmblandan flæddi út fyrir karið og niður á pall, þar sem gríðarlegur hitinn olli því að eldur kviknaði í rafmagnsleiðslum. Rafmagni sló út þegar í stað og starfsmenn náðu að slökkva eldinn, sem fyrr segir. Fyllt var upp í gatið og lekinn síðan stöðvaður. Engan sakaði.

Einn bíll frá slökkviliðinu var starfsmönnum til halds og trausts nokkra stund eftir að búið var að tryggja svæðið en ekki kom til þess að slökkviliðsmenn þyrftu nokkuð að aðhafast. 

Lesa má frétt Víkurfrétta og skoða fleiri myndir hér.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV