Einn lést í árás á múslima í Lundúnum

19.06.2017 - 03:16
epa06036519 Onlookers gather by a police cordon near Finsbury Park, after a van collision incident in north London, Britain, 19 June 2017. According to the Metropolitan Police Service, police responded on 19 June, to reports of a major incident where a
 Mynd: EPA
Einn lést og átta slösuðust, þar af þrennt alvarlega, þegar sendibíl var ekið inn í hóp gangandi vegfarenda á Seven Sisters-vegi í Finsbury Park-hverfinu í norðurhluta Lundúna laust eftir miðnætti. Sjónarvottar herma að bílnum hafi verið ekið vísvitandi upp á gangstétt, þar sem fjöldi fólks var ýmist á gangi eða sitjandi við kaffihúsaborð. Einn maður var handtekinn. Hryðjuverkadeild lögreglu rannsakar árásina.

Langflestir vegfarenda voru múslimar að koma frá kvöldbænum í mosku í samkomuhúsi við Sjösystraveginn og svo virðist sem árásinni hafi verið beint gagngert gegn þeim. Farið er að síga á seinni hluta Ramadan, tíma föstu, bæna og góðverka í íslömskum sið, þar sem fasta skal frá sólarupprás til sólarlags. Fjölmargir sátu því við borð útikaffihúsa og fengu sér hressingu þegar árásin var gerð.

Ökumaður sendibílsins var handtekinn á staðnum. Vegfarendur náðu að grípa hann og halda föstum uns lögregla kom á vettvang. Haft er eftir sjónarvottum að tveir menn til viðbótar hafi verið í bílnum, en þeir komist undan á hlaupum. Sú frásögn hefur ekki fengist staðfest og nýjustu yfirlýsingar lögreglu benda til þess að hún eigi ekki við rök að styðjast. Fjöldi lögreglu- og sjúkraflutningamanna streymdi  á vettvang og veginum var lokað um hríð.  

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV