„Einmuna fjöldi (...) skemmti sér einmuna vel“

15.04.2017 - 11:09
Aldrei fór ég suður - Rokkhátíð alþýðunnar, föstudagskvöld 14. apríl 2017.
 Mynd: RÚV
 „Það var einmuna mikill fjöldi að skemmta sér í nótt en fólk skemmti sér einmuna vel,“ segir Ingvar Jakobsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Hundruð gesta eru á Ísafirði um páskahelgina, þar sem Aldrei fór ég suður fer fram auk annarra viðburða.

Ingvar segir að líklega hafi sex til sjö hundruð manns verið að skemmta sér á Ísafirði í gærkvöld og nótt. Engin mál hafi þó komið inn á borð lögreglu. Lögreglan er með fíkniefnaeftirlit líkt og fyrri ár og er einn fíkniefnahundur á svæðinu. Ekkert hefur fundist af ólöglegum fíkniefnum.

Mikil og fjölbreytt dagskrá er um helgina á Ísafirði og í nágrannabæjum. Aldrei fór ég suður – Rokkhátíð alþýðunnar – hófst klukkan sjö í gærkvöld og lauk með framkomu hljómsveitarinnar HAM, sem steig á sviðið um klukkan hálftólft. Hálftíma síðar, á miðnætti, hófst ball með Pál Óskari, tónleikar með Gísla Pálma og 25 ára afmælistónleikar plötunnar Bein leið með KK band, á Vagninum á Flateyri. Dagskráin heldur áfram í dag.

Aldrei fór ég suður - Rokkhátíð alþýðunnar, föstudagskvöld 14. apríl 2017.
 Mynd: RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV