Eineltisáætlanir hafa skilað árangri

21.04.2017 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Lee Morley  -  flickr.com
Markvisst hefur verið unnið gegn einelti hér á landi eftir hrun sem skýrir góða útkomu úr nýlegri PISA könnun segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. Íslenskir unglingar verða samkvæmt henni síður fyrir einelti í skóla en jafnaldrar þeirra annars staðar í heiminum.

Líðan 15 ára unglinga var könnuð í fyrsta sinn í PISA rannsókn sem gerð var fyrir tveimur árum. 540 þúsund unglingar í 72 löndum tóku þátt í henni og voru niðurstöður hennar kynntar í vikunni. Samkvæmt þeim er einelti undir meðaltali hér á landi. Innan OECD-ríkja telja tæp 19 prósent nemenda að þeir verði reglulega fyrir einelti en hér á landi er talan 11,9 prósent. Arnór segir að Íslendingar velti fyrir sér velferð nemenda í samstarfi við nokkur lönd.  
 
„Það sem við höfum séð á Íslandi er þetta sterka samfélag sem er í kringum skólana og við sáum t.d. í tengslum við þann árangur sem hefur náðst í vímuefnavörnum. Það hefur verulega dregið úr áfengisneyslu og tóbaksneyslu meðal íslenskra ungmenna. Og við sjáum að það sem hefur skapast í kringum það tengslin við foreldra, samtök foreldra, íþróttastarf, æskulýðsstarf og tenging þessara við skólann að það hefur myndað svona samfélag sem veldur því að það er tekið á málum.“   

Arnór segir að mikið hafi verið unnið í málaflokknum og skólar flestir með eineltisáætlanir sem séu að skila árangri.  

„Og við sjáum t.d. eftir hrun hefur verið, var mikil vakning á þessu varðandi eineltið sérstaklega og það hefur verið unnið mjög markvisst í því í skólunum meðal sveitarfélaga og það held ég að hafi líka skilað sér. Það er líka sterkur grunnur sem er í samfélaginu í kringum skólana - skólann sem samfélag.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV