„Ég þarf hjálp til að stækka draumana mína“

Mynd með færslu
 Mynd: Eiríkur Ingi Böðvarsson  -  RÚV
„Ég hef ekki séð neinn annan gera þetta. Ég þarf hjálp til að stækka draumana mína. Þeir eru kannski ekki nógu stórir“, segir hin tuttuga og fjögurra ára Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem skrifaði nýjan kafla í golfsögu Íslands þegar hún varð fyrsti íslenski kylfingurinn sem tryggði sér rétt á LPGA mótaröðinni.

Ólafía spilaði vel á fyrstu tveimur mótunum og komst í gegnum niðurskurðinn. Á síðustu þremur mótum hefur hún hins vegar ekki náð settu marki. „Í næstu viku keppi ég í Texas. Þar ætla ég að reyna að vera afslöppuð því ég hef verið að reyna of mikið á hinum mótunum. Nú tek ég bróður minn með mér og ætla hafa gaman og njóta“, segir Ólafía Þórunn.

Mynd með færslu
 Mynd: Eiríkur Ingi Böðvarsson  -  RÚV

Ólafía er viðmælandi Ragnhildar Steinunnar í Ísþjóðinni næsta sunnudagskvöld en þar segir hún að það sé vissulega erfitt að ryðja brautina. „Ég er að vinna með aðila til að koma huganum þangað, að ég geti þetta í alvörunni“. En hún var ein af þremur kylfingum sem hlaut nýverið styrk frá LPGA mótaröðinni til þess að vinna með fagfólki til að hámarka árangur sinn.

Ólafía segir að nú kappkosti hún að þjálfa tækniatriði og fá tilfinningu fyrir því sem hún er að gera. Hún bendir jafnframt á að hún læri mest af mistökunum. Hana hefur dreymt um að verða atvinnukylfingur frá unga aldri en árið 2013 hafi hún ákveðið að láta drauminn rætast. „Þá fór ég að leggja meiri vinnu í þetta og auka æfingar. Fyrst fór ég á litla mótaröð í Evrópu, svo komst ég á Evrópumótaröðina og núna er ég komin á stærstu mótaröð í heimi þannig að þetta er búið að vera ótrúlegt ævintýri. Ég á nóg inni, þetta er bara byrjunin“.

Ísþjóðin með Ragnhildi Steinunni er á dagskrá RÚV næsta sunnudag kl.20.20.