Deila um skattalækkun á uppgangstímum

20.04.2017 - 19:34
Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar 8. des 2016.
 Mynd: RÚV
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra stendur við áætlun um lækkun á virðisaukaskatti þótt opinbert sérfræðingaráð telji að hún gæti ógnað stöðugleika. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að Alþingi hljóti að hlusta á gagnrýni ráðsins.

Þegar ferðamaður greiðir fyrir skoðunarferð, gistingu eða aðra ferðaþjónustu leggst 11% virðisaukaskattur ofan á verðið. Það er jafnmikið og á matvöru. Nú vill ríkisstjórnin færa ferðaþjónustuna upp í 24%, sem er það sem er almennt lagt á vörur og þjónustu, hvort sem það eru föt, uppþvottalögur eða bílaviðgerðir. En í framhaldinu á svo að lækka þann skatt í 22,5%, þar með talið á ferðaþjónustuna. Sjálfstæður sérfræðingahópur á vegum stjórnvalda telur að þessi lækkun á almenna skattþrepinu gæti ógnað stöðugleika.

Fjármálaráð, sem er að meirihluta kosið af Alþingi, á samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál að rýna fjármálaáætlun stjórnvalda, sem nú liggur fyrir Alþingi. Í nýbirtu áliti ráðsins kemur fram að margt í áætluninni standist vart grunngildi laganna. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að ýmsar gagnlegar ábendingar komi fram hjá ráðinu um hvað hefði mátt betur fara.

Sérfræðingarnir segja útlit fyrir að aðhald í ríkisfjármálum minnki á næstu árum, þegar það ætti þvert á móti að aukast, í þeim miklu umsvifum sem nú eru í efnahagslífinu. Benedikt segir að þetta sé þvert á málflutning stjórnarandstöðunnar um meiri útgjöld. „Þannig að ég held að þetta styrki meginhugsunina í áætluninni.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að stjórnvöld hafi verið gagnrýnd fyrir að leggja ofuráherslu á skattalækkanir. „Þau auðvitað boða lækkun á efra þrepi virðisaukaskattskerfisins sem er mjög óskynsamleg ráðstöfun í núverandi efnahagsástandi.“

Katrín segir jafnframt að hún telji að engan veginn liggi fyrir nægar greiningar á því hvaða áhrif þessi breyting á skattalegu umhverfi ferðaþjónustunnar eigi eftir að hafa á atvinnugreinina til lengri tíma litið.

Benedikt telur gagnrýni fjármálaráðs ekki gefa ástæðu til að áætluninni verði breytt í þinginu. Frekar sé tilefni til að taka tillit til ábendinganna við gerð næstu fjármálaáætlunar.

Katrín segist hins vegar ekki trúa öðru en að meirihlutinn hlusti eftir áliti ráðsins. „Hugsunin á bakvið ráðið er auðvitað að þetta sé óháð sérfræðingaráð til stuðnings Alþingi, og við hljótum auðvitað að hlusta eftir þeim athugasemdum sem þarna koma fram.“

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV