Danskir bankar notaðir í peningaþvætti

20.03.2017 - 21:20
Evruseðlar.
 Mynd: sanja gjenero  -  RGBStock
Tugir milljarða af illa fengnu fé hafa verið fluttir í gegnum banka í Danmörku í skattaskjól. Danska dagblaðið Berlingske Tidende fullyrðir þetta í dag. Stjórnendur og starfsmenn bankanna hafi ekkert aðhafst, þótt viðvörunarljós hefðu átt að kvikna.

Berlingske Tidende fjallar um málið í dag. Umfjöllunin er unnin í samstarfi við OCCRP, samtök sem fjalla um spillingu og skipulagða glæpi, og rússneska dagblaðið Novaya Gazeta. Málið er til rannsóknar hjá yfirvöldum í Lettlandi og Moldóvíu.

Samkvæmt fréttinni hafa milljarðar danskra króna verið fluttir af reikningum í Moldóvu eða Lettlandi yfir á reikninga í dönskum bönkum, meðal annars hjá Nordea í Danmörku og útibú Danske Bank í Eistlandi. Þaðan voru peningarnir svo fluttir í skattaskjól, til dæmis í Panama og á Seychelles-eyjum. Að sögn Berlingske telja yfirvöld í Lettlandi og Moldóvu að féð sé illa fengið; afrakstur alþjóðlegrar glæpastarfsemi.

Alls voru um sjö milljarðar danskra króna – jafnvirði um 110 milljarða króna – fluttir yfir í danska banka á árunum 2011 til 2014, og þaðan áfram til skattaskjóla. Lars Krull, sérfræðingur í bankamálum, segir í samtali við Berlingske, að sumar millifærslunar hafi verið svo grunsamlegar að viðvörunarljós hefðu átt að kvikna í bönkunum. Stjórnendur og starfsmenn bankanna hafi þó ekkert aðhafst.

Lars Krull segir að ekki sé hægt að finna neina eðlilega ástæðu fyrir því að fyrirtæki háar fjárhæðir frá Moldóvu til Danmerkur og svo áfram til Panama. Erfitt sé að skilja hvers vegna hvorki bankarnir né yfirvöld hafi bundið enda á þessi viðskipti. Hann furðar sig á að þau hafi fengið að viðgangast svo lengi.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV