Byrjar á fjöllum og endar í brennsluofninum

Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Nýsköpun
 · 
Postulín
 · 
Menningarefni

Byrjar á fjöllum og endar í brennsluofninum

Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Nýsköpun
 · 
Postulín
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
09.03.2017 - 11:15.Bergsteinn Sigurðsson.Menningin, .Kastljós
„Sumir eru góðir í golfi, ég get ekkert í golfi,“ segir Sigurður Guðmundsson, sem undanfarinn áratug hefur unnið að því að búa til postulín úr íslensku hráefnu í bílskúrnum heima hjá sér í Kópavogi. Hann er enn að þróa aðferðina en vonast til að geta hafið framleiðslu á listgripum úr alíslensku postulíni.

Sigurður er nýkominn á eftirlaun en starfaði áður hjá Rannsóknarþjónustu Háskóla Íslands. Hann fór á leirkeranámskeið á árum áður og tók ástfóstri við efniviðinn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Guðmundsson býr til postulín úr íslensku hráefnu í bílskúrnum heima hjá sér í Kópavogi.

Mun taka nokkur ár í viðbót að þróa efnið

En það er þolinmæðisverk að fullvinna postulín frá upphafi til enda. Frá því að Sigurður gengur á fjöll í leit að hráefni og þar til hann getur brennt það í ofni líður yfirleitt hálft til heilt ár. Meginuppistaðan í postulíni er kaolínleir. Hann hefur Sigurður sótt í litlar námur á Vestfjörðum en mest hefur hann fundið á Hellisheiði. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Mér hefur tekist að ná kaolíninu mjög hreinu og mjög þjálu og góðu efni. En til þess að geta gert postulín þarf fleiri efni, feldspat og kvars. Kvars er auðvelt að fá á íslandi en aftur á móti er mun erfiðara að fá feldspat. Ég hef notað vikur svolítið, það er hægt að nota í staðinn fyrir feldspat.  Ég er enn að finna í hvaða hlutföllum þetta á að vera. Þetta er prósess sem mun taka mig nokkur ár í viðbót.“ 

Á sama stað og Kínverjar fyrir þúsund árum

Hægt er að þekkja postulín á hljómnum. „Það klingir í því og það þarf náttúrulega að vera sterkt og helst gegnsætt. Kínverska postulínið var upphaflega grátt. Ég er kominn á þann stað, ég er eins og Kínverjar voru fyrir þúsund árum.“ 

Sigurður segir að það sé fyrst og fremst listamannseðlið sem knýi hann áfram. „Að búa til eitthvað nýtt sem er algjörlega einstakt. Það að vinna hráefnin, ráða við að breyta þeim og ráða yfir þeim er það sem rekur mig áfram.“ 

Rætt var við Sigurð og Garðar Eyjólfsson, fagstjóra vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands, í Menningunni í Kastljósi.