Bylmingsslagarar í reffilegri Reykjavík

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Bylmingsslagarar í reffilegri Reykjavík

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
31.03.2017 - 11:30.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
101 Nights er fjórða plata Sturlu Atlas á tveimur árum. Gríðarleg virkni þar sem stjörnueiginleikar aðalsöngvarans og takt- og tónlistargáfur Loga Pedro eru í forgrunni. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

101 Nights er fjórða plata þessa gengis á tæpum tveimur árum sem telst vel af sér vikið, fyrsta afurðin, Love Hurts, var eitt af því fyrsta sem ég tók til umfjöllunar þegar við byrjuðum með þessa gagnrýni fyrir Rás 2. Sturla hefur fylgt mér þéttingsfast undanfarin misseri og ég fíla hann vel. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því.

Ofursvalt

Platan hefst á One Life, ofursvöl og grípandi smíð sem hittir mann beint í hjartastað. Smellur! Nei, við þurfum eiginlega nýtt orð þar sem þetta er kallað „banger“ á hipp-hoppísku. Bylmingur? Veit ekki. En bylmingskraftur er í því, sannarlega. Aron Can á sterka innkomu í laginu og upphafstónarnir gefa því vigt, kvikmyndalegir eiginlega og byggja undir stemningu sem öskrar „það er eitthvað mikið að fara að gerast hérna“.

Sturla Atlas er hljómsveit, á opinberri Fésbókarsíðu er nú talað um Sturla Atlas & the 101 Boys, en það er ekki nema von að flestir tengi nafnið við meginsöngvarann, Sigurbjart Sturlu Atlason. Hann er andlitið út á við og býr yfir útgeislun og orku rétt eins og þessar poppstjörnur sem eru á milli tannanna á okkur alla daga. Líkt og Glowie gæti ég hæglega séð þennan dreng fara mun lengra en niður einhverja grágrýtta götu í henni Reykjavík.

Talandi um höfuðborgina, hún myndar nokkurn veginn sviðið fyrir sköpun Sturlu Atlas. Og þá er ekki bara um tónlist og texta að ræða, heldur og hönnun og ýmsa aukahluti sem fylgja hipp-hoppmenningunni. Í textum er stemningin undirstungin, mikið er rætt um 101 Boys og ævintýri ungra borgardrengja myndar söguna þar sem kynlíf, eiturlyf, ástarbrölt og almennar – stundum angistarfullar – vangaveltur um lífið og tilveruna eru í aðalhlutverki. Er þetta skáldað eða raunverulegt? Það skiptir ekki máli. Útkoman er fyrst og síðast sannfærandi hvar brugðið er upp smámyndum af reykvískum raunveruleika, eins og hann snýr að ungum piltum sem hafa allt að vinna og engu að tapa.

Melódía

Sturla rappsyngur og reyndar rappar hann varla. Mest er um melódískan söng sem hann jafnhattar með glæsibrag, hann fyllir upp í rúmið er hann hefur upp raust. Logi Pedro er firnaöruggur á tökkunum eins og venjulega, tónlistin sem hann leggur undir er sálarríkt og tilfinningahlaðið r og b blandað hipphoppi og þeir félagar leika sér með hörku og mýkt. Ég kallaði Sturlu grjótharðan en um leið silkimjúkan í dómi um Love Hurts og áfam er siglt glæsilega á milli þessara andstæða á 101 Nights.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Sturla Atlas - 101 Nights

Tónlist

Þessi tyggjótík er vel töff!

Tónlist

Gamlir nýbylgjuhundar gelta af krafti

Tónlist

Þeir fiska sem róa