Búin að fá nóg af yfirlýsingum Erdogans

19.03.2017 - 20:57
epa05840460 German Foreign Minister, Sigmar Gabriel speaks during his joint press conference with Albanian Prime Minister Edi Rama (unseen), in the Foreign Office in Berlin, Germany, 10 March 2017. Both politicians discussed about the bilateral relations,
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands.  Mynd: EPA
Stjórnvöld í Þýskalandi eru búin að fá nóg af stórkarlalegum yfirlýsingum Erdogans, forseta Tyrklands, sem síðast í dag sakaði Angelu Merkel kanslara um að beita aðferðum nasista gegn Tyrkjum.

„Við erum umburðarlynd, en við erum ekki bjánar,“ sagði Sigmar Gabriel utanríkisráðherra í dag í viðtali við dagblaðið Passauer Neue Presse. Þess vegna sagði hann að stjórnvöld hefðu látið Erdogan vita að hann hefði gengið of langt í yfirlýsingum sínum að undanförnu. Julia Klöckner, varaformaður Kristilegra demókrata, flokks Merkel kanslara, velti því fyrir sér á fundi með fréttamönnum í dag hvort Erdogan væri búinn að missa vitið. Hún sagðist hafa hvatt Evrópusambandið til að frysta fjárhagsaðstoð upp á milljarða evra til Tyrkja vegna framferðis þeirra að undanförnu.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV