Brjóstaaðgerð vegna BRCA-gens ekki lýtaaðgerð

17.03.2017 - 14:55
Sjúkratryggingum Íslands ber að taka þátt í greiðslu fyrir fjarlægingu og endursköpun á hægra brjósti konu með BRCA2-genið samkvæmt nýlegum úrskurði Úrskurðarnefndar velferðarmála en konunni var synjað um greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingum þar sem hún gekkst undir aðgerðina á Klínikinni og talið var að um lýtaaðgerð væri að ræða.

Nefndin telur að þegar brjóst er fjarlægt og enduruppbyggt vegna greiningar á BRCA-geni sé ekki um að ræða lýtaaðgerð eins og Sjúkratryggingar hafa haldið fram. Þessi úrskurður er þýðingarmikill fyrir konur sem greinst hafa með þetta illvíga gen sem talið er auka líkur á brjóstakrabbameini í konum og körlum í sumum tilvikum um 70-80 %. Inga Lillý Brynjólfsdóttir, formaður Brakka-samtaka BRCA-arfbera, fagnar þessum úrskurði og telur hann fordæmisgefandi fyrir aðrar konur sem hugleitt hafa aðgerð vegna BRCA-greininga. 

Konan sem um er fjallað í úrskurði Úrskurðarnefndar velferðarmála greindist með krabbamein í vinstra brjósti fyrst árið 2004 og var gerður á því fleygskurður. Hún greindist svo með BRCA2-genið árið 2014. Til stóð að fjarlægja bæði brjóst konunnar með enduruppbyggingu á Landspítalanum en árið 2015 greindist hún óvænt aftur með krabbamein í vinstra brjósti. Það var fjarlægt tafarlaust en brjóstnám á hægra brjósti og enduruppbygging á báðum brjóstum var látin bíða. 

Um áramótin 2015-02016 hætti sérfræðilæknirinn á Landspítalanum sem konan var hjá og hóf störf á Klínikinni en hafði náð að gera undirbúningsaðgerð á hægra brjósti konunnar fyrir brottnám og var sú aðgerð gerð á Landspítalanum. Konan vildi ekki skipta um lækni í miðri meðferð enda hafi sérfræðilæknirinn verið eini sérmenntaði læknirinn á Íslandi í slíkum aðgerðum og með langmestu reynsluna að því er fram kemur í úrskurðinum. Brottnám hægra brjósts og enduruppbygging á báðum brjóstum var svo gerð á Klínikinni í fyrra.

Konan sótti um greiðsluþátttöku á þeirri aðgerð en Sjúkratryggingar féllust eingöngu á að greiða fyrir aðgerð vegna endursköpunar á vinstra brjósti en synjuðu greiðsluþátttöku vegna aðgerðar á hægra brjósti með þeim rökum að um lýtaaðgerð væri að ræða og því væri ekki heimild til að taka þátt í slíkum aðgerðum samkvæmt reglugerð um lýtalækningar nr. 722/2009. Konan kærði niðurstöðuna til Úrskurðarnefndar velferðarmála í maí í fyrra.

Inga Lillý formaður Brakka samtakanna missti bæði móður sína og móðursystur úr brjóstakrabbameini af völdum BRCA-gensins. Hún gekkst nýlega sjálf undir brjóstnám og enduruppbyggingu á báðum brjóstum hjá Klíníkinni vegna BRCA2-gens sem hún greindist með og fékk einnig synjun um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Rök þeirra voru að sá þáttur aðgerðarinnar væri skilgreindur sem lýtaaðgerð og þar að auki væri ekki hægt að greiða fyrir hana þar sem aðgerðin hafi ekki verið framkvæmd á Landspítala.  

Inga Lillý segist fagna því að Úrskurðarnefnd velferðarmála túlki þetta sem lífsnauðsynlega aðgerð til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi en ekki lýtaaðgerð eins og Sjúkratryggingar Íslands hafa haldið fram.  „Greiðsluþátttakan á að fylgja sjúklingnum en ekki húsinu þar sem aðgerðin er framkvæmd, þess vegna er þessi úrskurður mikilvægur fyrir okkur í Brakka samtökunum. Nú geta konur haft val um hvar þær gangast undir aðgerð svo lengi sem samningur gildir á milli ríkisins og sérgreinalæknis sem framkvæmir aðgerðina,“ segir Inga Lillý. 

 

 

Mynd með færslu
Helga Arnardóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós