Bræðralagsást í Bítlasetri

09.12.2016 - 12:51
Fjallabræður, vestfirski karlakórinn eini og sanni, skellti sér til London, nánar tiltekið í hið fornfræga hljóðver Abbey Road Studios, til að taka upp nýjasta verk sitt, Þess vegna erum við hér í kvöld. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er plata vikunnar á Rás 2.

Það er mikil rómantík í kringum karlakórinn Fjallabræður og þetta er sjarmerandi hópur. Hann sker sig skemmtilega frá öðrum hefðbundnum karlakórum en er um leið svo ofsalega íslenskur eitthvað. Um hann leikur þægilegt hispursleysi, menn eru órakaðir og með skyrturnar upp úr og greinilegt að samveran og félagsskapurinn er ofar öllu. Nú, söngurinn skiptir þá eðlilega einhverju en hann er ekki höfuðatriðið. Það má alveg yfirfæra hina gullnu pönkspekisetningu Einars Arnar, „Það er ekki spurning um hvað þú getur heldur hvað þú gerir“ yfir á þennan dáyndiskór.

Að gera

Já, talandi um að gera, kórinn smellti sér í Abbey Road hljóðverið í London til að taka upp þessa plötu sem kallast Þess vegna erum við hér í kvöld. Með í för voru nokkrir vinir Fjallabræðra (enda platan eignuð Fjallabræðrum og vinum) og koma þau Magnús Þór Sigmundsson, Sverrir Bergmann, Jónas Sig., Mugison og Lay Low m.a. við sögu.

Platan er á nokkuð lágstemmdum nótum, áferð sem virkar sem tvíeggjað sverð. Þegar vel tekst upp er þægilegur, nánast helgur blær yfir framvindunni en á köflum verður platan of lágvær og tilþrifalítil. Það sem háir plötunni hins vegar meira er að lagasmíðadeildinni eru nokkuð mislagðar hendur. Hér eru góð lög – og alls ekki góð lög. Atið hefst vel, „Ljósa ljós“ með Mugison er fallegt lag og fín upphafsstemma en svo taka við lög sem læðast undarlega hljótt um. Allt frá á „Á hvítum hesti“ og upp að „Hér á ég heima“ er stemningin óþægilega lítil. Það er ekki fyrr en þeir félagar Magnús Þór og Jónas Sig. mæta í titillag Magnúsar sem kórinn – og konseptið – hrekkur almennilega í gang. Útgáfa kórsins af „Ó María“, sungið ásamt Jónasi Sig., er þá mjög skemmtileg og lagið „Hvar er tími?“ er og gott, eftir Jónas og mjög „Jónasarlegt“. „Jörð“ Unnar Birnu kórfélaga fellur hins vegar flatt eins og flest upphafslögin. Lokalagið er þá lúmskt göldrótt, verkefninu slauffað með reisn.

Og þannig er nú það. Uppleggið var þá þetta, að taka upp ný frumsamin lög tiltölulega hratt og svona er hin hljómræna niðurstaða í þessum eyrum. Persónulega hefði ég viljað heyra meira af þessum glettnu æfingum sem heyra má í Jónasarlögunum og hreinlega hefði ég viljað fá að heyra meira í kórnum, of oft þjónar hann lágstemmdu bakgrunnshlutverki.

Sjarmerandi

Þrátt fyrir þessar tónrænu gloppur mun ég aldrei taka þessa sjarmerandi eiginleika kórsins sem ég nefndi í upphafi frá honum, við þá greiningu stend ég og bræðurnir ólaskaðir að því leytinu til. Þetta verkefni er þá afar heillandi og rís ofar þessu tuði mínu. Sá þáttur er líka undirstrikaður í sérdeilis fallegum pakkningum með stemningsljósmyndum frá ferðalaginu góða. Vegferðin hefur sannarlega verið einstök eins og segir í umslagi plötunnar. Og já, hljómur allur er þá lungnamjúkur og góður. Enda platan tekin upp í Abbey Road!