Boðar öfluga öryggisgæslu á kjördag

21.04.2017 - 12:12
epaselect epa05918644 French Prime Minister Bernard Cazeneuve (2-R), flanked by Interior Minister Mathias Fekl (3-R) and Justice Minister Jean-Jacques Urvoas (R), speaks to the media outside the Elysee Palace after a defense council meeting in Paris,
Bernard Cazeneuve ávarpar blaðamenn í morgun. Að baki honum eru Mathias Fekl, innanríkisráðherra Frakklands, og Jean-Jacques Urvoas dómsmálaráðherra.  Mynd: EPA
Bernard Cazeneuve , forsætisráðherra Frakklands, segir stjórnvöld hafa endurskoðað öryggisráðstafanir vegna forsetakosninganna á sunnudag eftir árásina í París í gær. Stjórnvöld séu við öllu búin.

Lögreglumaður lét lífið og tveir menn særðust þegar maður vopnaður byssu skaut á þá á Champs Élysées í miðborg Parísar í gærkvöld. Árásarmaðurinn, Karim Cheurfi, var skotinn til bana.

Hann var öryggisstofnunum kunnur og hafði setið í fangelsi fyrir morðtilraunir, reyndi meðal annars að drepa tvo lögreglumenn árið 2001. Cheurfi var handtekinn í febrúar grunaður um samskonar áform, en sleppt vegna skorts á sönnunargögnum.

Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst árásinni í París á hendur sér og herma fregnir að fundist hafi miði tengdur samtökunum nærri líki Cheurfis.

Öryggisráð Frakklands kom saman í morgun til að ræða stöðu mála og sagði Cazeneuve forsætisráðherra að fundi loknum að öll Evrópa væri skotspónn hryðjuverkamanna fyrir það að hafa frið að leiðarljósi. Hann sagði að meira en 50.000 lögreglumenn og 7.000 hermenn yrðu við gæslu á kjördag. Allt yrði gert til að tryggja að þær gengju snurðulaust.

Forsetaframbjóðandinn Marine Le Pen sagði í morgun að stjórnvöld ættu að herða landamæraeftirlit eftir árásina og hvatti til að útlendingar undir eftirliti leyniþjónustustofnana yrðu reknir úr landi. Þetta myndi hún gera yrði hún kjörin forseti.

Cazeneuve forsætisráðherra brást hart við og sakaði hana um að vera að nýta sér morðið á lögreglumanninum í pólitískum tilgangi.