Bjóða 1,2 milljarða í land við Jökulsárlón

26.10.2016 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Jökulsárlón
Íslenskt fjárfestingafélag vill kaupa jörðina Fell við Jökulsárlón fyrir tæplega 1,2 milljarða króna. Félagið sem ekki fæst uppgefið hvað heitir átti hæsta boð í jörðina þegar tilboð voru kynnt á fundi hjá sýslumanninum á Suðurlandi í dag.

Jörðin Fell er á austurbakka Jökulsárlóns sem er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Allt uppbyggingarsvæði við lónið er innan jarðarinnar en vesturbakkinn er þjóðlenda. Ólafur Björnsson lögmaður sem sér um söluna segir að þrjú gild tilboð hafi borist. Hann vill ekki gefa upp á þessari stundu hverjir lögðu þau fram en þau hafi öll komið frá íslenskum fjárfestingafélögum og séu skuldbindandi. Ólafur segir óvíst hvort landeigendur taki hæsta boði því 1,2 milljarðar séu undir væntingum. Síðast þegar tilboð komu fram var hæsta gilda boð 750 milljónir en landeigendur höfnuðu því. Tilboð upp á 1,5 og 1,1 milljarð voru þá metin ógild því fjármögnun var ekki talin tryggð. Annar fundur hefur verið boðaður hjá sýslumanni 4. nóvember.

Uppbygging við Jökulsárlón hefur ekki farið af stað vegna deilna landeigenda og fóru tveir þeirra fram á nauðungarsölu til slita á sameign. Þeir geta stöðvað söluferlið með því að afturkalla beiðni sína. Vonir standa til að uppbygging geti hafist við lónið ef jörðin Fell kemst í hendur eins eiganda. Annars hefur sveitarfélagið Hornafjörður farið þess á leit við forsætisráðuneytið að uppbygging verði leyfð á vesturbakkanum sem er þjóðlenda. Við það gætu landeigendur misst lykilstöðu hvað uppbyggingu við lónið varðar.