Bílskúrsbörnin

Dagur Hjartarson
 · 
Húsnæðismál
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni

Bílskúrsbörnin

Dagur Hjartarson
 · 
Húsnæðismál
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
15.03.2017 - 16:58.Bergsteinn Sigurðsson.Menningin, .Kastljós
Dagur Hjartarson talar um hús og híbýli.

Snemma á síðustu öld lét íslenska ríkið byggja verkamannabústaði til að tryggja láglaunafólki húsnæði á sanngjörnu verði. Í gegnum þetta kerfi fengu foreldrar mínir blokkaríbúð í Grafarvoginum. Og þar ólumst við bræðurnir upp við öryggi sem ég held að börn lágtekjufólks í dag þekki ekki. 

Upp úr aldamótum var verkamannabústaðakerfið nefnilega lagt niður. Markaðurinn átti að sjá um jafnvægið. Markaðurinn leiðréttir sig, er stundum sagt: ef hann ofhitnar sér hann sjálfur um að kæla sig o.s.frv. Gott og vel.

Á síðustu 20 árum hafa orðið almennar verðhækkanir á Íslandi upp á sirka 150% en á sama tímabili hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um sirka 450%. 

Markaðurinn leiðréttir sig, en hvað í fjandanum er hann eiginlega að leiðrétta? Ég veit um par sem þurfti að flytja þrisvar á síðasta ári. Er hægt að leiðrétta það kannski niður í tvö skipti? Ég þekki barnafjölskyldu sem býr í bílskúr. Er hægt að leiðrétta þennan bílskúr?

Ekki hefði ég viljað alast upp í bílskúr. En á Íslandi í dag búa börn sem flakka eins og bakpokaferðalangar úr einni skitinni kjallaraholu í þá næstu. Og ef markaðurinn treystir sér ekki til að leiðrétta það, þá verður bara einhver annar að gera það.