Bílahasar slær aðsóknarmet

Erlent
 · 
Kvikmyndir
epa05888219 US actor and cast member Vin Diesel (L) and South African actress and cast member Charlize Theron attend the film premiere of the movie 'The Fate of the Furious' at the CineStar at Potsdamer Platz in Berlin, Germany, 04 April 2017.
Vin Diesel og Charlize Theron við forsýningu myndarinnar í Þýskalandi.  Mynd: EPA

Bílahasar slær aðsóknarmet

Erlent
 · 
Kvikmyndir
17.04.2017 - 05:48.Róbert Jóhannsson
„The Fate of the Furious“, áttunda myndin í bílahasarmyndaflokknum „Fast and Furious“, sló aðsóknarmet á alþjóðavísu um helgina að sögn Universal Pictures kvikmyndaversins. Samtals greiddu kvikmyndahúsagestir yfir 532 milljónir bandaríkjadala fyrir miða á myndina, jafnvirði tæpra 60 milljarða króna, um frumsýningarhelgina.

Myndin nær metinu af Stjörnustríðsmyndinni „Mátturinn vaknar“, eða „The Force Awakens“, sem seldi miða fyrir 529 milljónir dala opnunarhelgina síðla árs 2015. Bílahasarinn slær einnig aðsóknarmet utan Bandaríkjanna, en þar halaði hún inn rúmar 432 milljónir dala, rúmum hundrað milljónum meira en „Jurassic World“ sem átti metið frá 2015. Endanlegar aðsóknartölur fyrir opnunarhelgina verða gerðar opinberar í dag, en þær gætu verið á reiki að sögn CNN. 

16 ár eru frá því fyrsta myndin í hasarmyndaflokknum kom út. Aðsóknarmetið eru góðar fréttir fyrir framleiðendur myndanna, því þegar er búið að gefa það út að níunda og tíunda myndin komi í kvikmyndahús árin 2019 og 2021. Hluti nýjustu myndarinnar var tekinn upp á Íslandi, og sjást þau atriði vel í kynningarstiklu myndarinnar.

Tengdar fréttir

Mynd með færslu

Milljarðaframleiðsla Furious 8 hér á landi