„Best að fresta ferðalögum ef hægt er“

17.04.2017 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Það er ekkert ferðaveður víða um land í kvöld. Fólk ætti því að hugsa sig vel um áður en það leggur af stað í ferðalög og helst fresta þeim ef það getur, segir veðurfræðingur.

Stormur geisar enn á vestanverðu landinu og þegar líður á kvöldið hvessir fyrir norðan- og austan. Útlit er fyrir blindbyl á Steingrímsfjarðarheiði og á hálsunum á sunnanverðum Vestfjörðum frameftir kvöldi. Vindhviður hafa farið í næstum 50 metra á sekúndu undir Hafnarfjalli.

Hvessir með kvöldinu fyrir norðan og austan

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, hefur fylgst með framvindunni í dag. Ekkert lát hefur verið á veðrinu. „En það fer svona heldur að draga úr þessu upp úr sjö í kvöld. Fyrst hérna vestanlands og smám saman dregur úr úrkomunni líka. En jafnframt er að hvessa fyrir norðan og austan. Verður líklega einhver skafrenningur og jafnvel snjókoma þar eitthvað fram á nóttina.“

Hann hvetur fólk því til að hafa varann á sér. „Það er kannski best að fresta ferðalögum ef hægt er, þá fram á nóttina eða í fyrramálið. „Verði fólk að ferðast á vestanverðu landinu sé ráðlegt að bíða með það fram á kvöld en fyrir norðan og austan er ráðlegt að leggja strax af stað í styttri ferðir eða fresta þeim ella. Þorsteinn segir að veðrið gangi þó niður í nótt. „Þetta er bara hvellur sem er að fara yfir allt landið. Byrjaði suðvestanlands og fer svo yfir Norður- og Austurlandið í kvöld líka. Svo verður komið fínasta veður í fyrramálið.“

Nokkur útköll björgunarsveita

Björgunarsveitir hafa farið í nokkur útköll á höfuðborgarsvæðinu síðustu klukkutímana vegna foks. Björgunarsveitarmenn á vestanverðu Snæfellsnesi sóttu ferðamenn sem treystu sér ekki til að keyra áfram í veðurhamnum og í Grindavík þurfti að hemja þakplötur.