Bankar, eigendavald og eignarhald

20.03.2017 - 18:49
Það hefur lengi verið andstaða gegn því að erlendir aðilar eignist hlut í íslenskum bönkum. Kaupin á hlutum í Arion banka eru því þáttaskil. En kaupin virðast frekar liður í uppstokkun tengdri Kaupþingi en löngun til að fjárfesta í íslenskum banka. Framtíðar-eignarhald stóru bankanna þriggja er enn óljóst.

Viðleitni SEB til að ná tátyllu í íslenska fjármálageiranum

Skömmu fyrir aldamótin 2000 var áhugi í sænska bankanum SEB að eignast hlut í banka á Íslandi. Eins og fleiri norrænir bankar var bankinn að endurskilgreina heimamarkaðinn sem Eystrasaltslöndin þrjú og öll Norðurlöndin, þá einnig Ísland. Það reyndi aldrei á þetta, ekki ljóst hvort samningar hefðu náðst um verð en stjórnendur bankans vildu eindregið ná tátyllu á Íslandi.

Bankar á flugi, reynslulitlir stjórnendur

Eftir að einkavæðingu bankakerfisins lauk í árslok 2002 fóru íslensku bankarnir ærlega á flug heima og heiman. Stjórnendur bankanna voru áberandi reynslulitlir. Varla nokkur hafði starfað í erlendum bönkum, ekki séð aðra banka innan frá en bankann sem þeir störfuðu í eða í mesta lagi annan íslenskan banka.

Hvort það hefði á endanum haft áhrif ef einhver bankanna hefði verið í erlendri eigu eða erlendir eigendur í áhrifastöðu er spurning sem aldrei verður svarað. Allir stórir vestrænir bankar hafa á undanförnum árum þurft að borga háar sektir, að hluta fyrir glæpsamlegt athæfi. Erlendu málin eru reyndar allt annars eðlis en íslensku málin, önnur saga.

2009: 11 lönd í heimi án erlendra banka

Í úttekt Alþjóða gjaldeyrissjóðsins 2012 á markaðshlutdeild erlendra banka kom í ljós að 2009 voru aðeins ellefu lönd án erlendra banka: Eþíópía, Hætí, Íran, Jemen, Katar, Kúba, Lýbýa, Óman, Sádi Arabía, Sri Lanka – og Ísland. Ekki oft að Ísland er nefnt í sömu andrá og þessi lönd. Samkvæmt tölum OECD 2012 var markaðshlutdeild erlendra banka í OECD-löndunum að meðaltali 20 prósent svo Ísland sker sig þarna úr. Í löndum utan samtakanna er meðaltalið 50 prósent.

Er blandað bankakerfi betra? Ekkert einhlýtt svar

Það er ekkert einhlítt svar við því hvort erlend hlutdeild í bönkum sé til bóta eða ekki. Sænskir bankar eiga stóran hlut í bankakerfi Eystrasaltslandanna og það kom sér vel í fjármálakreppunni 2008 þegar sænsku bankarnir tóku höggið þar. En í Austur-Evrópulöndum innan ESB er talið að erlend hlutdeild hafi gert að verkum að þar var minna framboð af fjármagni þegar lánsfé þvarr 2007 og næstu árin á eftir, svona svo dæmi séu nefnd.

Bankar eru ljóslega valdastofnanir og valdi banka má beita með ýmsu móti. Í því ljósi er andstaðan gegn erlendri hlutdeild í íslensku bönkunum áhugaverð. Ekki síst af því hrunsagan sýnir samspil bankanna og stærstu eigendanna, það er hvernig eigendavaldið var notað.

Kaupin í Arion: úr einum vasa í annan

Það eru vissulega tímamót að erlendir aðilar eignist hlut í íslenskum banka. En þetta eru hins vegar ekki fjárfestar sem velja þennan kost alveg af fúsum og frjálsum vilja, ekki að Arion banki sé endilega frábær fjárfesting heldur að þessi kostur hentar í stöðunni. Það má líta svo á að kaupin í Arion séu liður í uppstokkun kröfuhafa. Eins og einn viðmælandi sagði: verið að færa pening úr einum vasa í annan. Prófraunin á Arion sem fjárfestingu fæst þegar bankinn fer á markað eins og stefnt er að. Hvað áhugi til meðal-langs eða lengri tíma þýði þá.

Kaupin í Arion veita innsýn í aflandsvætt fjármálakerfi

En kaupin veita líka innsýn inn í aflandsvætt fjármálakerfi nútímans. Fjárfestingabankar og sjóðir skipuleggja fjárfestingar sínar nokkurn veginn algjörlega aflands. Því eru þessir nýju eigendur flestir skráðir í Lúxemborg, eru þar í keðju félaga með svipuðum nöfnum. Eina fólkið sem kemur við sögu í opinberum gögnum um þessi félög er fólk sem vinnur við aflandsþjónustu.

Skýringin er að fjárfestingasjóðir reka fjárfestingar sínar í gegnum marga sjóði, skúffufélög í orðsins fyllstu merkingu. Yfirleitt bókhaldsæfingar fyrir skattyfirvöld í mörgum löndum frekar en að þarna sé verið að fela eignarhald.

Sculptor-klasinn í Lúxemborg 

Í tilkynningu Arion banka kemur til dæmis fram að einn nýi eigandinn, Sculptor Investments er sagður tengdur Och-Ziff sjóðnum, menn fara varlega með orðið ,,eigandi.” Í Lúxemborg eru 32 félög sem heita Sculptor eitthvað, öll skráð á sama heimilisfang og fyrirtæki sem veitir aflandsþjónustu.

Eignarhaldsfeluleikur íslenskra umsvifamanna 

Eignarhalds-feluleikur einkenndi íslenskt viðskiptalíf fyrir hrun og einnig algjörlega einstakt að stærstu hluthafar bankanna urðu stærstu lántakendur þeirra. Því má ætla að það sé meiri ástæða til að hafa áhyggjur af stórum íslenskum aðilum sem stefna á að verða stóreigendur í íslensku bönkunum frekar en erlendum hluthöfum sem einu sinni voru kröfuhafar.