Auður Ava: Ímyndunaraflið er líka veruleiki

„Þegar ég var að skrifa þessa bók hafði ég mikinn áhuga á hugmyndum um minninguna og minnið,“ segir rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir sem nú er að lesa skáldsögu sína Undantekninguna sem kvöldsögu á Rás 1.

„Ég sá heimildamynd á BBC um heilann og þar komst ég að því að ímyndunaraflið er á sama stað og minnið í heilanum. Þegar við rifjum eitthvað upp erum við í raun að skálda,“ segir Auður Ava. Í spilaranum hér að ofan má sjá ýtarlegt viðtal við Auði Övu um bókina. 

Heimsendir

Auður Ava segir að það sé hálfgerð heimsendamynd sem er dregin upp í byrjun sögunnar. Aðalsöguhetjan, María, stormar út í heimskautanóttina á flöskugrænum kjól. Eiginmaður hennar segist elska annan mann á meðan eldar loga á himni og nýja og gamla árið takast á. Eiginmaðurinn Flóki, sem er orðinn ástfanginn af samstarfsmanni sínum og nafna Flóka Karli, segist ætla að fara frá Maríu og að hún sé síðasta konan í lífi hans - undantekningin. „Mig vantaði atburð í upphafi sögu sem yrði til þess að söguhetjan væri stöðugt að rifja upp, að fást við minningar og endurskapa það sem var áður,“ segir Auður Ava.

Eiginmaðurinn Flóki sem fer frá Maríu er stærðfræðingur og sérfræðingur í óreiðukenningunni, eins og samstarfsmaður hans sem hann fellir hug til. „Ég er að leika mér með þessa hugmynd að lífið sé óreiðukennt og kaótískt, það sé alltaf að koma okkur á óvart sama hvað við skipuleggjum. En skáldsaga er mjög rökrétt heild, hún hefur upphaf og endi, og byggir á ákveðnum strúktúr. Ég er svolítið að tefla þessu tvennu saman.“

Upphaf og endir

„Í lífinu veit maður ekki alveg hvar atburðir byrja og enda,“ segir Auður Ava og bætir við: „Jú, maður fæðist og deyr, en þess á milli er lífið aðeins flóknari vefur. Kannski eins og köngulóarvefur eða gerist á mörgum plönum drauma, tilfinninga og ímyndunarafls. Þegar við rifjum eitthvað upp þá bætum við hlutum við og það er ekki alveg ljóst hvar mörk milli skáldskapar og veruleika liggja. Þess vegna má oft sjá í bókinni marga vinkla á sama atburð en ég er í raun að segja að ímyndunaraflið er alveg jafn mikill veruleiki og hvað annað.“

Bók um skáldskapinn

Auður Ava segir að það sé flókið að vera manneskja og það séu þversagnirnar sem geri okkur mannleg, það sé útgangspunktur í allri hennar persónusköpun. Hana langaði líka til að skrifa bók um skáldskapinn, eins konar handbók, og því er mikið af skáldum í bókinni. „Persónurnar eru eiginlega flestar að skrifa. Aðalrithöfundurinn er Perla, dvergur sem býr í kjallaranum hjá Maríu og það vill þannig til að hún er líka hjónabandsráðgjafi og sálfræðingur.“ En þó Perla sé ekki nema einn metri á hæð þá er hún frjáls í ímyndunaraflinu. „Svo fer að hún þorir varla að stinga niður penna af ótta við að það sem hún skrifi rætist í lífi Maríu á efri hæðinni,“ segir Auður.

Mynd með færslu
 Mynd: rsi.is
Auður Ava tekur á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum í ár fyrir skáldsöguna Ör.

Auður segir að það að lesa bókina eftir allan þennan tíma hafi verið auðvelt því hún hafi fjarlægst hana. „Í rauninni nota ég það sem mælikvarða á það að bók sé tilbúin, að hún sé eins og hún hafi verið skrifuð af öðrum, orðin manni ókunnug. Þá hefur maður ekkert fleiri lykla að henni en hver annar lesandi.“ Það er þó eitt sem hún sér pínulítið eftir. „Þessi rödd Perlu, hinn rithöfundurinn sem var svona mitt alterego. Sú rödd varð svolítið ágeng þegar ég var að skrifa bókina og vildi vera aðalpersóna. Þannig ég þurfti að skera hana mikið niður. Og það sækir einstaka sinnum á mig samviskubit yfir því sem frá henni kom sem hefur ekki fengið að líta dagsins ljós.“

Undantekningin kom út árið 2012 og er af mörgum talin með betri skáldsögum síðustu ára á Íslandi. Eins og fleiri bækur Auðar Övu hefur hún verið þýdd á fjölmörg erlend tungumál.

Hér fyrir ofan má sjá ýtarlegt viðtal við Auði sem hóf á dögunum lestur bókarinnar sem kvöldsögu hlustenda á Rás 1. Lestrarnir hljóma alla virka daga á Rás 1 kl. 21:30.

Á sunnudag kl. 15 á Rás 1 segir Auður frá bókinni og verður frásögninni blandað saman við nokkur brot úr bókinni í þættinum Ómögulegt að gera ráð fyrir öllum möguleikum.