„Ástandið ekkert verra en það hefur verið"

21.04.2017 - 10:03
Fasteignaverð er víða á landsbyggðinni mun lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Á Akureyri eru minni eignir jafnvinsælar og fyrir sunnan. Á Vesturlandi hafa frístundahús mikil áhrif og fyrir austan er verið að prófa nýjar leiðir til að liðka fyrir byggingu nýrra húsa.

Mjög greinilegur munur er á verði fasteigna í Reykjavík og á Akureyri. 

„Verðmunurinn er kannski, eins og verið hefur talað um, 20-25 prósent. Áherslurnar eru svipaðar, það er dálítill slagur um minnstu íbúðirnar, þær eru vinsælastar,“ segir Sigurður G. Sigurðsson, fasteignasali á Akureyri.

Fá fyrirspurnir að sunnan

Fasteignir í nágrenni Akureyrar seljast ágætlega, en þróunin hefur þó ekki verið sú sama og í Reykjavík þar sem fólk sækir í eignir í nágrannabæjum á borð við Þorlákshöfn, Hveragerði og Akranes þótt það starfi í höfuðborginni.

„Við finnum ekki mikið fyrir því. Þó seljum við töluvert hér út með firði og finnum svo sem jú, kannski aukna sölu þar. En ekki endilega Akureyringar, við fáum einmitt frekar fyrirspurnir að sunnan, að kaupa í minni bæjarfélögunum hérna í kringum okkur,“ segir Sigurður.

 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Munur á stöðu ungra kaupenda

Hann segist sjá mun á Akureyri og Reykjavík, því ungir kaupendur eigi greinilega erfiðara með að komast inn á markaðinn fyrir sunnan.

„En auðvitað er þetta alltaf sama baslið, það hefur svo sem aldrei verið auðvelt fyrir fyrstu íbúðarkaupendur að komast inn á markaðinn og það er alltaf þessi sama saga. En ég myndi ekkert segja, ástandið hérna er ekkert verra en það hefur verið,“ segir Sigurður.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá Stykkishólmi

Eftirspurn eftir frístundahúsnæði hefur áhrif

Fasteignaverð lækkar eftir því sem fjær dregur Reykjavík og Akureyri. Margir þættir hafa áhrif á fasteignaverð og geta leitt til hækkunar.

„Þetta er gríðarlega tengt vinnumarkaðnum, samgöngum, það hefur verið sýnt fram á það. En svo er þessi nýja sókn í ferðaþjónustu,“ segir Vífill Karlsson, dósent við Háskólann á Akureyri.

Ferðaþjónustan geti þó haft bæði góð og slæm áhrif. Fylgifiskur hennar sé til dæmis aukin eftirspurn fjársterkra einstaklinga eftir frístundahúsnæði, eins og hefur gerst í Stykkishólmi. Þegar fasteignaverð hækkar getur það fælt ungt fólk frá. 

„Það getur átt sér stað ákveðin einsleitni í samfélaginu að þetta verði þrengri aldurshópur og eldra fólk. Og það er í sjálfu sér ekki góð þróun,“ segir Vífill.

Ísafjörður, Skutulsfjörður, Drónaskot Loftmynd, yfirlitsmynd,
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS

Á norðanverðum Vestfjörðum er fasteignaverð með því lægsta á landinu og í Ísafjarðarbæ eru yfir 200 íbúðir í eigu fólks sem er með lögheimili í öðrum sveitarfélögum. Vífill segir að hátt hlutfall sumarhúsa í þorpum geti haft fráhrindandi áhrif.

„Félagsauðurinn verður veikari fyrir vikið og allt öðruvísi. Og ekki endilega hentugur þeim sem að búa þarna varanlega. Allt árið,“ segir Vífil

Egilsstaðir, Fljótsdalshérað. Mynd tekin í júlí 2013. Mynd: Rúnar Snær Reynisson
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV

 

Selja húsin tilbúin undir innréttingar

Á Egilsstöðum skortir húsnæði eins og annars staðar og þá helst millistórar íbúðir. Vandamálið er hve lítið af húsnæði er í byggingu og fasteingasalar segja að hvatinn sé lítill. Þó markaðsverð fari hækkandi sé það enn undir byggingarkostnaði.

Nýlega reis þó eitt parhús hér á Egilsstöðum og þar er farin ákveðin leið til að auðvelda kaupin.

„Hér erum við að horfa á eign sem er fullbúin á 32 milljónir en menn geta til dæmis fengið hana tilbúna undir innréttingu á byggingarstigi 5 á um 25 milljónir. Þá eru menn að gera sjálfir það sem þarf að gera. Jafnvel að setja saman innréttingar sjálfir, eða mála og parketleggja og þess háttar. Búa sér þá til eigið fé,“ segir Hilmar Gunnlaugsson, fasteignasali á Egilsstöðum.

„Blessunarlega er það þannig að verðið er að skríða upp hér en það er ekki enn orðið það gott að menn geti byggt í stórum stíl upp á að selja. En með þessu móti að þá eru menn að ná að byggja og fá eitthvað fyrir sína vinnu iðnaðarmennirnir,“ segir Hilmar.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV