ASÍ og BSRB fá lóðir fyrir 1.000 íbúðir

20.03.2017 - 16:23
Reykjavíkurborg hefur gengið frá úthlutun lóða til íbúðafélagsins Bjargs. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða, en stofnendur þess eru ASÍ og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Skrifað var undir viðurkenningu á úthlutun lóðanna í dag.

Undirritunin fór fram að Móavegi í Grafarvogi þar sem gert er ráð fyrir 120 íbúðum. Alls mun Bjarg byggja eitt þúsund íbúðir fyrir tekjulága á vinnumarkaði, í samstarfi við Reykjavíkurborg. 

Íbúðir Bjargs verða svokölluð leiguheimili sem byggja á nýjum húsnæðislögum um almennar íbúðir og verða þær leigðar út til fólks með lágar- og meðaltekjur, að því er fram kemur í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

ASÍ og BSRB leggja fram stofnfé til Bjargs. Þá munu aðildarfélög veita félaginu víkjandi lán til að tryggja félaginu rekstrarfjármögnun fyrstu árin, eða þar til reksturinn er orðinn að því umfangi að hann verði sjálfbær.

Fyrir ári síðan gáfu Reykjavíkurborg og ASÍ  út viljayfirlýsingu og er lóðaúthlutunin nú á grunni hennar. Samkvæmt áætluninni átti að úthluta lóðu fyrir 150 íbúðir í fyrra, fyrir 250 íbúðir á þessu ári, 300 íbúðir á því næsta og loks lóðum fyrir 300 íbúðir árið 2019.