„Alltaf vongóður þegar menn eru að ræða saman“

21.04.2017 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsvarsmenn Akraneskaupstaðar og HB Granda hittust á fundi um hádegisbil í dag til að ræða hvort hægt væri að ná saman um uppbyggingu á hafnarsvæðinu á Akranesi til að tryggja að HB Grandi loki ekki botnfiskvinnslu sinni í bænum. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að þetta hafi verið samningafundur og að annar slíkur verði í næstu viku.

Auk Sævars sátu fundinn Ólafur Adolfsson, formaður bæjarráðs á Akranesi, Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, og Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri útgerðarinnar. Fundurinn stóð í nálega tvær og hálfa klukkustund.

Sævar vill ekkert tjá sig efnislega um það sem fram fór á fundinum. Spurður hvort hann sé vongóður um að lausn finnist segir hann: „Ég er alltaf vongóður þegar menn eru að ræða saman. Það er gott.“

Hann segir að hópurinn ætli að hittast aftur í næstu viku en að nákvæmur tími hafi ekki verið ákveðinn.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að menn hafi skipst á upplýsingum á fundinum. Þær fari menn yfir hvor í sínum ranni og niðurstaðan verði svo rædd á fundinum í næstu viku.