Áföll úr æsku skilja eftir djúp spor

19.02.2017 - 12:03
Fjóla Kristín Ólafardóttir átti erfiða æsku, en faðir hennar var sakaður um að misnota hana frá unga aldri. Hún var þriggja ára þegar foreldrar hennar skildu og aðeins sjö ára þegar móðir hennar lést. Hún var í yfirþyngd og varð fyrir einelti í skóla. Geðgreiningarnar urðu margar, eins og áfallastreituröskun, þunglyndi, geðhvörf og félagsfælni.

Jón Ársæll ræðir við Fjólu Kristínu Ólafardóttur í næsta þætti af Paradísarheimt, sem er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20.15. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.

Faðir Fjólu, sem hún vill reyndar ekki kalla svo, beitti fjölskyldu sína ofbeldi sem endaði með því að móðirin flúði heimilið með börnin í kvennaathvarf. Þegar Fjóla var aðeins tveggja ára gömul fundust á henni áverkar sem bentu til kynferðisofbeldis og þetta ofbeldi hélt áfram í mörg ár. „Það sem ég man eftir er að ég lá í rúminu og hann var blindfullur, og ég horfði á glugga sem ég starði á og var að bíða eftir að þetta yrði búið,“ segir Fjóla.

Fjóla hefur ekki talað við föður sinn síðan hún var 15 ára. En hverjar eru tilfinningar hennar til hans í dag? „Ég bara finn til með honum. En á móti er mér alveg sama þótt hann sé til,“ segir Fjóla, sem hefur átt erfitt með að vinna úr áföllum æskunnar. „Þetta er búið að vera mjög mikil vinna, alveg ofboðslega mikil vinna.“