Afleiðingar kannabisneyslu og útborgunarsöfnun

18.05.2017 - 18:37
Kannabisplöntur í gróðurhúsi í Hollandi.
 Mynd: Mateusz Atroszko  -  Freeimages
Þriðjungur stráka í framhaldsskólum, átján ára og eldri, hefur prófað kannabisefni samkvæmt nýjustu tölum frá Rannsóknum og greiningu. Fjórtán prósent sama hóps höfðu notað kannabisefni undanfarna 30 daga. Hlutfallið hjá stúlkum á sama aldri er talsvert lægra; tuttugu og eitt prósent þeirra hafa prófað kannabis og níu prósent undanfarna 30 daga.

Lögreglan segist verða mikið vör við framleiðslu, sölu og neyslu á kannabis, efnin hafa orðið sterkari og aðgengi er meira, ekki síst á samfélagsmiðlum. Við ræddum afleiðingar kannabisneyslu, sem geta verið mjög alvarlegar, við Sigurð Hektorsson yfirlækni á fíknigeðdeild Landspítalans.

Una Hildardóttir hefur gripið til óvenjulegs ráðs til að safna sér fyrir íbúð en hún líkt og margir aðrir sem eru á leigumarkaði, sér ekki fram á að geta safnað sér fyrir innborgun í íbúð þannig hún hefur sett af stað hópsöfnun þar sem meðal annars er hægt að kaupa sig inn í innflutningspartýið hennar.

Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt að styrkja húsráðendur um allt að 3,7 milljónir króna til niðurrifs hússins að Austurgötu 36 í samræmi við kostnaðarmat af hálfu umhverfis- og skipulagsþjónustu. Húsið er talið ónýtt af völdum veggjatítlna sem hreiðrað höfðu um sig í timburverki hússins. Engar tryggingar bæta slíkt tjón. Anna Gyða Pétursdóttir, húseigandi var á línunni. Þau hjónin bíða nú eftir svörum frá bankanum um hvort hann komi til móts við þau.

Ríkisútvarpið stóð fyrir ráðstefnu í dag um fjölmiðlun til framtíðar. Þá var kynnt ný stefna RÚV til ársins 2021. Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri ræddi framtíðina og hvernig RÚV þarf að bregðast við og getur brugðist við breyttu umhverfi - stórauknu framboði allskyns efnisveitna á netinu, hvernig stofnunin getur mætt óskum og væntingum þjóðarinnar um gott innlent efni og hvar almannaútvarp stendur um þessar mundir og á næstu árum.

Hallgrímur Thorsteinsson mætti galvaskur með glænýjar fréttir af tækni og vísindum og við töluðum um útvarpsleikritið Mannasiði eftir Maríu Reyndal, sem verður frumflutt á laugardaginn. Í verkinu er tekist á við erfitt og viðkvæmt mál, þegar líf tveggja fjölskyldna fer á hvolf eftir að menntaskólapiltur er sakaður um að hafa nauðgað skólasystir sinni. Verkið er unnið upp úr reynslusögum þolenda og gerenda kynferðisbrota og aðstandenda þeirra. María sagði frá verkinu.
 

 

Mynd með færslu
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi