Ætlar að láta gera gögnin aðgengileg ókeypis

21.04.2017 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vill að ríkisskattstjóri hefji undirbúning að því að setja öll opinber gögn um starfsemi fyrirtækja og eignarhald þeirra á netið, þar sem almenningur geti nálgast þau ókeypis.

Yfirvöld í Lúxemborg hafa gert ársreikninga fyrirtækja, og upplýsingar um eigendur þeirra, aðgengilegar ókeypis á netinu, eins og fjallað var um á ruv.is á miðvikudag. Sama á við um Bretland og Lúxemborg. Á Íslandi þarf hins vegar að greiða fyrir þessar upplýsingar. Ríkisskattstjóri segir það pólitískt álitamál hvort fara eigi sömu leið á Íslandi, því fylgi kostnaður.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra telur rétt að gera þessi gögn ókeypis á Íslandi.

„Já, ég er alveg eindregið þeirrar skoðunar. Ég held að það eigi að vera mjög opið hverjir eiga fyrirtæki. Ársreikningar eiga að vera opnir, og ég tel að það eigi að ganga jafnvel lengra, þannig að ef það eru fyrirtæki sem eiga fyrirtæki þá eigi menn að vita hverjir standa á bakvið, hvar eru einstaklingarnir sem endanlega standa á bakvið. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt fyrir opna umræðu um atvinnulífið.“

Hann segir að næstu skref séu að ríkisskattstjóri byrji að undirbúa að gera þetta aðgengilegt öllum. Benedikt segist telja þetta mjög nauðsynlegt. Það muni draga úr tortryggni í garð viðskiptalífsins, og allt sem dragi úr tortryggni sé jákvætt. Hann segist ætla að óska eftir því formlega við ríkisskattstjóra að þetta verði gert.

„Já, ég mun gera það. Ég hef gert það óformlega nú þegar, og ég mun fylgja því eftir. Við eigum eftir að fá kostnaðaráætlun á hvað þetta gæti kostað, og hann þarf þá að fá náttúrulega fjármuni til þess, en ég reikna með að það verði ekkert að vanbúnaði að gera það núna á kjörtímabilinu.“

 

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV