Ætlaði ekki að útiloka gagnrýni á sjókvíaeldi

02.07.2017 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Bæjarstjórinn í Fjallabyggð segir að það hafi ekki verið ætlunin að útloka gagnrýni á sjókvíaeldi á málþingi sem haldið var um greinina á Ólafsfirði. Enginn þeirra sem voru á mælendaskrá var mótfallinn þess háttar eldi.

Fjallabyggð stóð fyrir málþingi um sjókvíaeldi á Ólafsfirði á föstudaginn. Arnarlax hyggst koma upp eldiskvíum á fimm stöðum í Eyjafirði, þar á meðal í Ólafsfirði.

Veiðiréttarhafar eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt sjókvíaeldi.

„Maður brosir nú bara í kampinn sko, þeir eru nú að reikna sig í einhverjar rosalega miklar tölur hvað þetta sé mikill þjóðhagslegur ávinningur. En megnið af verðmætunum fer til veiðiréttarhafanna. Þannig að það væri mjög verðugt rannsóknarefni, fyrir alla, að fá þessa réttu þjóðhagslegu hagkvæmni sem er af þessu. Hvað miklu er skilað inn til ríkisins og þjóðfélagsins, og hvað fer síðan svart og sykurlaust í vasa veiðiréttarhafanna?“ segir Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð.

Á mælendaskrá var enginn sem mótfallinn var sjókvíaeldi en tólf félög í veiði, hvalaskoðun, útivist og sjómennsku skoruðu í síðasta mánuði á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að friða Eyjafjörð fyrir sjókvíaeldi á laxi. Gunnar segir að ekki sé ætlunin að loka á gagnrýnisraddir.

„Það getur vel verið að við höldum hérna annað málþing eftir sex til tólf mánuði þar sem að þessum aðilum verður boðið að borðinu. Þegar þeir eru búnir að borga skattinn,“ segir Gunnar.

Mynd með færslu
Vigdís Diljá Óskarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV